febrúar 2021
Vanlíðan eykst og biðlistar lengjast
Andleg vanlíðan hjá börnum hefur aukist á seinustu árum. Þetta staðfesta margvíslegar rannsóknir. Má þar nefna þýðisrannsóknina Ungt fólk sem hefur verið framkvæmd meðal allra grunnskólabarna á landinu af rannsóknamiðstöðinni Rannsóknum og greiningu frá árinu 1992. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk sem lögð var fyrir 8., 9. og 10. bekk grunnskóla í febrúar 2020 hefur hlutfall þeirra nemenda sem telja andlega heilsu sína vera slæma aukist samanborið við niðurstöður fyrri ára. Ef farið er yfir niðurstöður rannsóknarinnar má sjá að geðheilbrigði barna hefur farið versnandi, á það sérstaklega við meðal stúlkna. Á árabilinu 2014 til 2020 hefur orðið töluverð aukning á hlutfalli stúlkna sem finna fyrir einkennum þunglyndis og kvíða. Jafnframt er nú hlutfall stúlkna í 9.og 10. bekk sem telja sig hamingjusamar með lægsta móti. Þá hefur einnig komið ítrekað fram hjá börnunum sjálfum áhyggjur vegna andlegra erfiðleika og þörf á auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu.