febrúar 2016
Kvíði
Kvíði er eðlileg tilfinning bæði hjá börnum og fullorðnum. Hann tengist yfirleitt nýrri reynslu og því sem er óþekkt eins og að byrja í skóla, nýrri vinnu eða að eignast barn. Einnig getum við fundið fyrir kvíða þegar við þurfum að gera eitthvað sem veldur okkur óöryggi. Mikilvægt er að hafa í huga að ef kvíðinn er í hófi og undir góðri stjórn er hann jákvæður og getur hjálpað okkur að nýta betur hæfileika okkar og getu. Einnig getur kvíðinn hjálpað okkur að bregðst hratt við ef þörf er á og forðast raunverulegar hættur eins og í umferðinni. Aftur á móti er litið á kvíða sem vanda þegar hann er meira eða minna stöðugur eða ekki í samhengi við aðstæður. Þegar kvíðinn er farinn að hafa hamlandi áhrif á daglegt líf og lífsgæði er talað um að viðkomandi sé með kvíðaröskun.
febrúar 2016
Þunglyndi
Það skiptast á skin og skúrir hjá okkur mannfólkinu og depurð er fylgifiskur lífsins líkt og gleðin. Depurð er eðlilegt viðbragð við álagi, missi og ýmiss konar öðrum erfiðleikum eða sjúkdómum. Einnig getum við öll átt okkar slæmu daga þar sem við erum leið, döpur, sorgmædd, pirruð, fúl eða löt en þunglyndi er annað og meira. Þunglyndi er algeng geðröskun og gera má ráð fyrir að allt að því fjórða hver kona (10-25%) og áttundi hver karlmaður (5-12%) þjáist af þunglyndi einhvern tíma ævinnar.