febrúar 2020
Skaðleg áhrif loftmengunar
Fjöldi rannsókna hafa sýnt að loftmengun hefur skaðleg áhrif á heilsu fólks, einkum barna og þeirra sem glíma við öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (World Health Organization; WHO) hefur loftmengun neikvæð áhrif á heilsu fólks og hefur stofnunin (ásamt Umhverfisstofnun Evrópu; EEA) bent á að með því að bæta loftgæði megi draga úr ýmsum heilsufarsbrestum t.d. öndunarfæra- og hjartasjúk-dómum, heilablóðföllum og jafnvel ótímabærum dauðsföllum. Loftmengun eykur einnig tíðni lungnabólgu og dauðsfalla vegna sýkingarinnar. WHO ályktar sem svo að loftmengun sé sá umhverfisþáttur sem hafi einna mest neikvæð áhrif á lýðheilsu þar sem hún ógnar bæði lífsgæðum almennings og efnahag. Samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu EEA metur stofnunin að allt að 60 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar svifryks (PM2,5) á Íslandi á hverju ári og færri en fimm dauðsföll vegna útsetningar á NO2 og O3. Því er mikið sóknarfæri fyrir Ísland að draga úr svifryksmengun í landinu og þannig fækka ótímabærum dauðföllum vegna þess (1,2).
febrúar 2020
Uppsprettur loftmengunar á Íslandi
Andrúmsloft utandyra á Íslandi er almennt hreint og lítið mengað, þótt töluverður munur geti verið á þéttbýli og dreifbýli og aðstæðum hverju sinni. Þess má geta að samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) þá er Ísland með lægsta ársmeðaltal fyrir svifryk PM2,5 og NO2 samanborið við önnur Evrópulönd (1). Að auki eru sólarhringsmeðaltöl svifryks, NO2, SO2 og O3 yfirleitt undir íslensku viðmiðunarmörkum efnanna, þó að styrkur þeirra eigi það til að hækka til skamms tíma í senn (fáar klukkustundir).