október 2021
Reykjalundur – Í fararbroddi endurhæfingar
Reykjalundur fagnar 76 ára afmæli á þessu ári en það var 1. febrúar 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var innritaður á Reykjalund. Heilbrigðisstofnunin Reykjalundur er eins og kunnugt er í eigu SÍBS en saga Reykjalundar og SÍBS er auðvitað gríðarlega merkileg og samtvinnuð sögu lands og þjóðar á þessum tíma. Það er ekki ætlunin að rekja þessa áhugaverðu sögu hér heldur veita lesendum innsýn í nútímann og horfa til framtíðar. Söguna þarf þó alltaf að umgangast af virðingu og nærgætni enda verður svona mögnuð og einstök starfsemi ekki til nema vegna hóps eldhuga sem hrífa enn stærri hóp með sér og nánast sannfæra samfélagið um að hægt sé að framkvæma kraftaverk, öðrum til heilla. Áhugasömum um söguna skal bent á SÍBS bókina frá árinu 1988 og Sigur lífsins sem gefin var út 2013.