mars 2023
Mikilvægi góðrar hljóðvistar
Ánægjulegt er að á síðustu tveimur áratugum, frá aldamótum að telja, hefur orðið veruleg vitundarvakning hjá almenningi hér á landi um mikilvægi góðrar hljóðvistar. Rannsóknir hafa sýnt að hljóðvist í umhverfi okkar hefur mikil áhrif á líðan, heilsu sem og afköst í vinnu. Góð hljóðvist stuðlar því með beinum hætti að auknum lífsgæðum. Má þar fyrst nefna lágmörkun á truflun og óþægindum sem fólk verður fyrir sökum hávaða og hljóðbærni. Ekki er þó síður mikilvæg sú staðreynd að talað mál og heyrn eru okkar helstu skyn- og tjáningarfæri. Allur hávaði og hljóð sem til þess eru fallin að draga úr virkni þessara mikilvægu skynfæra hafa því neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér. Í greinarkorni þessu verða raktir helstu þættir sem hafa áhrif á gæði hljóðvistar á heimilum, í grunn- og leikskólum, á vinnustöðum og í kaffi- og veitingahúsum. Yfirferðin er langt því frá tæmandi en er hugsuð til að veita innsýn í málefnið.