október 2015
Þarf ég bætiefni?
Kannanir á mataræði þjóðarinnar hafa verið gerðar reglulega undanfarna áratugi, en niðurstöðurnar gefa okkur meðal annars upplýsingar um hvort almenn hætta sé á skorti á völdum vítamínum eða steinefnum. Þessar kannanir gefa einnig vísbendingar um hvaða fæðutegundir eru lykiluppsprettur hvers næringarefnis fyrir sig í íslensku mataræði. Kannanir á mataræði eru grundvöllur þess að hægt sé að yfirfæra vísindalega þekkingu um þörf líkamans fyrir hin ýmsu næringarefni yfir í einfaldar ráð- leggingar um mataræði, það er hvaða mat við ættum að borða til að líkaminn fái öll þau efni sem hann þarfnast. Í slíkum ráðleggingum er mikið lagt upp úr fjölbreytni, enda er fjölbreytni lykillinn að hollu mataræði þar sem engin ein fæðutegund inniheldur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Hver fæðuflokkur hefur sína sérstöðu.