febrúar 2022
Samfélagsbreytinga er þörf
Íslenska þjóðin, eins og íbúar í öðrum vestrænum löndum, hefur verið að þyngjast hratt síðastliðna áratugi og hefur algengi offitu aukist. Árið 2007 var talið að 19,0 % fullorðinna karla og 21.3% fullorðinna kvenna á Íslandi væru með líkamsþyngdarstuðul > 30 kg/m2 sem skv. skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) teljast vera með offitu. Árið 2017 var þetta hlutfall komið upp í 25.4 % karla og 27,9% kvenna (Embætti landlæknis, Heilsa og líðan Íslendinga). Þessi þróun veldur áhyggjum þar sem rannsóknir sýna að með hækkandi líkamsþyngdarstuðli eykst áhætta einstaklingsins á að fá ýmsa aðra sjúkdóma, meðal annars hjarta- og æðasjúkdóma og efnaskiptasjúkdóma. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að aðstoða einstaklinga til að léttast með það markmið að koma í veg fyrir frekari sjúkdóma en árangur ekki verið mikill. Hingað til hafa breytingar á mataræði vegið þungt til að ná fram þyngdartapi. Ýmis konar matarkúrar hafa gengið í gegnum vinsældartímabil án nokkurs árangurs. Við höfum reynt að takmarka neyslu á fituríkum matvælum sem breytti ekki miklu um þyngdarþróunina og á síðustu árum hefur lágkolvetna mataræði notið meiri vinsælda. Á síðustu árum hefur meðferð við offitu einnig breyst og nýir meðferðarmöguleikar komið fram. Hér mun ekki verða fjallað nánar um slíkar meðferðir heldur farið yfir þær breytingar sem orðið hafa á lífsháttum og mataræði þjóðarinnar á síðustu áratugum og hafa valdið þyngdaraukningu.
júní 2024
Sérhæfð meðferð við offitu
Meðferð við offitu hefur fleygt fram síðastliðin ár. Mikilvægt er að þessi meðferð sé byggð á faglegum grunni og veitt af einstaklingum með þekkingu á offitusjúkdómnum. Óháð því hvaða meðferðarúrræði er valið skiptir mestu máli hvort einstaklingurinn hafi áhuga á meðferð og sé tilbúinn til að gera breytingar. Að reyna að þvinga einstakling með offitu til þess að taka þátt í meðferð getur haft skaðleg áhrif. Mikilvægt er að meðferðin sé einstaklingsmiðuð og að raunhæf markmið séu sett í upphafi.