mars 2024
Sjónarhorn næringarfræðinnar á gjörvinnslu
Þegar beiðnin barst og tækifærið gafst að fjalla um það vaxandi og jafnframt mikilvæga heilsutengda málefni sem eru gjörunnin matvæli, þá runnu fljótt tvær grímur á höfund þessarar greinar, þegar tölvuforritið Microsoft Word virtist ekkert vilja kannast við orðið gjörvinnslu í fyrirsögninni hér að ofan. Má nokkuð bjóða þér að leiðrétta orðið yfir í gjör-bil-vinnslu, gjörning eða gjótunni? spurði forritið. Í því samhengi er þó vissulega skammt liðið frá því að matarhillur okkar hérlendis, eins og hjá íbúum í öðrum vestrænum löndum, fóru í auknum mæli að glitra af glansandi matarpakkningum eftir innkomu gjörunninna matvæla í fæðuumhverfið okkar. Saga gjörunninna matvæla er til að mynda styttri í samanburði við unnin matvæli sem hafa tilheyrt hefðbundnu mataræði mannkynsins í gegnum aldanna rás. Þá getur lýsandi dæmi um unnin matvæli til dæmis verið mjólk, sem er iðulega gerilsneydd með hitameðhöndlun til að fjarlægja skaðlegar bakteríur. En hvað eru gjörunnin matvæli og hvar liggur línan milli þessara matvæla?