febrúar 2017
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum
Á síðastliðnu ári birti Embætti landlæknis í fyrsta skipti svokallaða lýðheilsuvísa (e. public health indicators) fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á Íslandi. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Birting lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi er liður í því að veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í eigin umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að hægt sé að vinna að því að bæta heilsu og líðan.
júní 2017
Ráðleggingar um mataræði og Skráargatið
Í ráðleggingum um mataræði er lögð rík áhersla á mataræðið í heild sinni og á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, en einnig á feitan og magran fisk, olíur, fituminni mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar. Hins vegar er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum. Að auki er nú meiri áhersla á gæði fitu og kolvetna frekar en magn hvors um sig. Það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.