október 2024
Félagslega fæðuumhverfið – gildi fjölskyldumáltíða
Um allan heim sest fólk reglulega niður og borðar saman. Það hefur verið gert með ýmsum hætti í gegnum tíðina í nánast öllum menningarheimum sem við þekkjum. Fræðilega séð er því hægt að rýna í sameiginlegar máltíðir á ýmsa vegu, til dæmis sem tákn fyrir menningarleg fyrirbæri, sem tækifæri til að greina félagsleg samskipti, sem möguleika á að rannsaka matarhegðun með sálfræðilegum aðferðum, eða bara daglegar sveiflur í fæðuvali fólks. Máltíðin getur sem slík verið öflugt fræðilegt tól allt frá hugvísindum til heilbrigðisvísinda. Máltíðin auðveldar okkur að skilja það sem við köllum „félagslega fæðuumhverfið“ – þá félagslegu þætti sem hafa áhrif á hvaða mat við borðum. Félagslega fæðuumhverfið er þar með einn af þeim lykilþáttum sem stuðla að hollum matarvenjum. Hér á eftir verður aðaláherslan á fjölskyldumáltíðina, einkum stöðu þekkingar þegar kemur að hlutverki fjölskyldumáltíða í heilsu og velferð barna og ungmenna.