október 2016
Brýnustu verkefni í heilbrigðiskerfinu
Íslensk heilbrigðisþjónusta kemur að mörgu leyti vel út í samanburði við önnur lönd. Það má að líkindum þakka því að hún hefur á að skipa mjög hæfu og velmenntuðu fólki, sem fengið hefur menntun sína í löndum sem standa framarlega hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Þetta starfsfólk leggur metnað sinn í að veita þjónustu eftir bestu getu. Það er hinsvegar augljóst að aðrir þættir heilbrigðiskerfisins eru ekki í jafngóðu ásigkomulagi. Stefnumörkun í heilbrigðismálum hefur lengi verið óljós og hlutverk einstakra stofnana er óskýrt. Það gildir bæði um ráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands, Embætti landlæknis og einstakar heilbrigðisstofnanir. Það hefur orðið til þess að heilbrigðisþjónustan hefur þróast af dálitlu handahófi og það er ekki ljóst að hagsmunir neytenda þjónustunnar hafi verið hafðir í fyrirrúmi og enn síður að þeir fjármunir sem varið er til heilbrigðismála séu að skila sér í sem bestri þjónustu til landsmanna. Ef þessum hlutum væri komið í betra horf má ætla að íslenskt heilbrigðiskerfi hefði alla möguleika á að ná toppsæti í alþjóðlegum samanburði.