október 2017
Bólgur vegna meiðsla og álags í íþróttum
Þátttaka almennings í íþróttum og hreyfingu hefur aukist á undanförnum áratugum. Í dag er hreyfing hluti af lífsstíl sístækkandi hóps og jákvæð áhrif hreyfingar á almennt heilsufar er óumdeild. Hins vegar geta ýmis stoðkerfiseinkenni fylgt aukinni hreyfingu, sérstaklega ef farið er of geyst eða álag aukið of hratt. Þessi einkenni má flokka í bráðmeiðsli og álagseinkenni. Bráð meiðsli verða skyndilega við eitt ákveðið atvik ef lífaflfræðilegt álag á ákveðinn vef verður meira en hann þolir á ákveðnum tímapunkti. Álagseinkenni koma oftast fram eftir ofálag yfir einhvern tíma sem leiðir venjulega til lítilla einkenna í fyrstu, en ef haldið er áfram á sama álagi versna einkenni smám saman þar til dregið er úr álagi eða því breytt. Ef engin breyting verður á álagi þarf einstaklingur oft að breyta eða hætta sinni hreyfingu tímabundið vegna einkennanna. Sem dæmi um bráð meiðsli má nefna vöðva- og liðbandatognanir, en álagseinkenni geta t.d. verið tennisolnbogi og álagstengd einkenni frá hásinum.