Hvað viltu vita? 

 

Greinasafn SÍBS tekur til, næringar, hreyfingar, andlegrar líðan, lýðheilsu, streitu og svefnvandamála

Skoða nánar

Næring

BjornGeirÁvanabindandi óhollusta 

Enginn vafi leikur lengur á um að ofneysla sykurs sé heilsuvá. Notkun íslendinga á sykri er langt umfram það sem heilsusamlegt getur talist. Gosdrykkjaneysla er mun meiri hér en á hinum Norðurlöndunum og þó telst hún mikil þar.Talið er að við neytum þrefalt meira magns af viðbættum sykri en skynsamlegt er.

Í starfi mínu við meðferð offitusjúkdómsins kynntist ég því vel hvernig sykur og jafnvel hægari kolvetni svo sem hveitivörur taka völdin af þeim sem fallið hafa fyrir offitusjúkdómnum. Sykur er ávanabindandi og þeim mun meiri sem þyngdin er, því erfiðara er fyrir einstaklinginn að ráða við vandann án aðstoðar.

Afleiðingar of mikillar sykurneyslu þarf varla að fjölyrða um en þær helstu eru offita, sykursýki og tannáta, vandamál sem kosta samfélagið og fórnarlömbin mikið fé og lífsgæðaskerðingu. Offita og sykursýki eru vaxandi lýðheilsuvandi og eru löngu komin fram úr tóbaksneyslu í umfangi.

lesa meira

Fituneysla Íslendinga hefur minnkað umtalsvert á síðustu 30 árum. Sérstaklega á þetta við um neyslu mettaðrar eða harðrar fitu. Þessa tegund fitu er helst að finna í feitum mjólkurvörum (rjómi, smjör, feitir ostar o.fl.) og rauðu kjöti (lamba-, svína- og nautakjöt). Fituneyslan samsvarar nú 36 prósentum af heildarorkuneyslunni, samkvæmt landskönnun á mataræði á vegum Landlæknisembættisins frá 2010–2011. Neysla transfitu og mettaðrar fitu hér á landi er þó enn um 15 prósent orkunnar sem er umtalsvert hærra en mælt er með.

Fituneysla er almennt meiri meðal karla en kvenna hér á landi. Yngsta fólkið virðist hins vegar velja fituminnsta fæðið. Fram kom í áðurnefndri könnun að ungt fólk á aldrinum 18–30 ára borðar þrisvar sinnum meira af pasta, frönskum kartöflum og sykruðum mjólkurvörum en þeir elstu (61–80 ára), sjö sinnum meira af pítsu, fimm sinnum meira af sykruðu gosi og tíu sinnum meira af prótín- og megrunardrykkjum. Eldra fólkið borðar tvisvar sinnum meira af fiski og nýjum kartöflum en unga fólkið og fjórum sinnum meira af innmat.

lesa meira

Tíska hefur meiri áhrif á neyslu Vesturlandabúa en við gerum okkur grein fyrir. Sú hlið sem snýr að fatatísku er mest uppi á yfirborðinu. Fataframleiðendur sjá sér hag í því að stuðla að breytingum á framboði og eftirspurn til þess að auka söluna. Þú kaupir þér föt oftar ef þau sem þú keyptir í fyrra eða hitteðfyrra eru orðin hallærisleg í ár.

Það eru ekki allir ginnkeyptir fyrir slíkum áróðri, sumum er nokk sama þó einhverjum finnist þeir hallærislegir. Þannig að fyrirtæki sem framleiða föt sem ekki falla undir tískuvarning þurfa að finna aðra leið til að auka neyslu síns markhóps.

Ekki flottari heldur betri

Þú átt að henda því sem þú átt og kaupa nýtt af því það felur í sér einhvers konar framför, er annað hvort þægilegra, hentugra eða fljótlegra. Það treður enginn lopapeysu ofan í bakpokann fyrir fjallgöngu í dag. Þú verður að eiga dúnúlpu sem pakkast saman í pínulítinn léttan nælonhólk sem tekur ekkert pláss í bakpokanum. Er það framför? Kannski. En var lopapeysan ekki alveg ágæt? Tók hún nokkuð svo mikið pláss?

lesa meira

Vinalegan vals ef þú spyrð líkama þinn. Honum virðist líða betur í þannig sveiflu. Þrátt fyrir það sýna sölutölur matvæla að mörg okkar bjóðum honum upp í trylltan tangó þar sem engin miskunn er sýnd. Við borðum mat sem lætur blóðsykurinn stíga hratt upp - upp - upp, líkaminn reynir í örvæntingu að sporna við þessu áhlaupi með því að þrýsta honum hratt niður – niður - niður sem í sjálfu sér getur gert okkur svengri svo við borðum eitthvað sem ýtir honum upp – upp - upp og svo heldur ballið áfram – svona í grófum dráttum.

Hvernig virkar þetta?

Líkaminn er stórkostlegur og eitt af því sem hann gerir er að brjóta niður, með hjálp ensíma, kolvetni úr matnum sem við borðum. Þannig brýtur hann bæði sykrur og sterkju niður í einsykrur (aðallega glúkósa). Glúkósinn er svo sendur frá lifur og út í blóðrásarkerfið svo allar frumur líkamans fái nægju sína. Við þetta hækkar blóðsykur – allt eftir því hvað og hversu mikið við vorum að borða.

lesa meira

Síðastliðna áratugi hefur það verið hin almennt viðurkennda afstaða vísindasamfélagsins að mikil fituneysla og einkum neysla á mettaðri dýrafitu sé sá þáttur í nútímamataræði sem hafi hvað sterkust tengsl við hjarta- og æðasjúkdóma. Þessi trú manna á sér rót i kenningum sem þróuðust um eða upp úr miðri síðustu öld þar sem tengsl fundust milli aukins kólesterólmagns í blóði og hjarta- og æðasjúkdóma. Sá vísindamaður sem hvað þekktastur var fyrir að halda þessu fram var bandarískur lífeðlisfræðingur að nafni Ancel Keys sem áður hafði getið sér gott orð fyrir rannsóknir á svelti og matvælaþróun fyrir bandaríska herinn.

Fremur sykurinn en fitan 

Í sem stystu máli hljómaði kenningin nokkurn veginn á þá leið að aukin neysla fæðu sem væri rík af kólesteróli og mettaðri dýrafitu, hækkaði kólesterólið í blóðinu sem aftur leiddi til þess að fólk þróaði með sér hjarta- og æðasjúkdóma.

Síðustu árin hafa þó hins vegar komið sífellt fleiri gögn sem benda til þess að þetta módel sé of mikil einföldun og að „vonda“ harða, mettaða fitan sé ekki sá mikli sökudólgur sem menn hafa hingað til haldið. Þvert á móti eru böndin æ meira farin að berast að sykri og öðrum auðmeltum kolvetnum sem ætti að teljast töluvert áhyggjuefni þar sem neyslan á þessum vörum hefur aukist töluvert undanfarna áratugi. (1-6)

lesa meira

Í ráðleggingum um mataræði er lögð rík áhersla á mataræðið í heild sinni og á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, en einnig á feitan og magran fisk, olíur, fituminni mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar. Hins vegar er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum. Að auki er nú meiri áhersla á gæði fitu og kolvetna frekar en magn hvors um sig. Það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.

Nú er meiri áhersla en áður lögð á umhverfismál, ef ráðleggingunum er fylgt þá er það jákvætt fyrir umhverfið þar sem aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki er mælt með að skipuleggja vel innkaup og eldamennsku og þannig má draga úr matarsóun og vernda umhverfið.

Ráðleggingarnar í hnotskurn:

lesa meira