Greinar / 7. febrúar 2023

Heilsusamlegri byggingar

Umhverfismál snúast ekki síður um heilsu fólks en minna hefur borið á þeirri umræðu samanborið við orkusparnað og losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisvottanir taka á öllum þessum þáttum og eru því einföld leið til að gera vel á öllum vígstöðvum.

Heilsukvillar vegna umhverfismengunar eru algengt vandamál sem mikilvægt er að bregðast við með einföldum ráðum eins og hér verður fjallað um.

Umhverfisvottanir, umhverfisvænni byggingariðnaður og losun frá byggingariðnaði eru umfjöllunarefni sem hafa vakið athygli upp á síðkastið ekki síst vegna nýrrar rannsóknar sem birtist á vegum verkefnisins Byggjum Grænni framtíð þar sem tekin var saman losun byggingariðnaðarins hér á landi.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði er gríðarlega stórt umhverfisvandamál en það sem ber heldur minna á er að heilsa og innivist skiptir einnig miklu máli.

Umhverfismengun er mengun sem er allt í kringum okkur og eykur líkurnar á að við þróum með okkur sjúkdóma og aðra heilsubresti. Þetta getur verið vegna efna sem kveikja á krabbameinsfrumum, gigt og öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum. Efni sem valda innkirtlasjúkdómum eins og skjaldkirtilsvandamálum, ófrjósemi, astma, ofnæmi, fæðingargöllum og stökkbreytingu erfðaefnis.

Umhverfisvottaðar byggingar

Umhverfisvottaðar byggingar hafa skipað sér ákveðinn sess á íslenskum markaði en Svanurinn og Breeam hafa verið mest notuðu vottunarkerfin. Vottanirnar taka á ýmsum þáttum eins og loftslagsmálum, efnainnihaldi byggingarefna, orkunotkun, gæðastjórnun, samgöngum og fleira.

Í Svaninum er lögð sérstaklega mikil áhersla á heilnæma innivist og eru þar gerðar strangar kröfur til hljóðvistar, dagsbirtu, rakavarna og efnainnihalds í byggingarefnum.

Þá þarf til að mynda allt byggingarefni sem notað er að vera umhverfisvottað eða samþykkt af Svaninum til notkunar í Svansvottuð byggingarverkefni. Umhverfisvottaðar byggingarvörur hafa farið í gegnum strangt vottunarferli sem miðar að því að lágmarka skaðleg áhrif á umhverfi og heilsu. Samþykkt byggingarefni hafa aftur á móti ekki farið í gegnum vottunarferli en framleiðandi vörunnar hefur ábyrgst að varan innihaldi ekki efni sem geta í ákveðnu magni verið skaðleg heilsu fólks, t.d. formaldehýð, þalöt, nanóefni, krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi efni. Þannig er komið í veg fyrir að notendur byggingarinnar verði fyrir útsetningu þessara skaðlegu efna hvort sem það er í gegnum innöndun eða snertingu.

Miðbær á selfossi.jpg

Svanurinn gerir einnig kröfu um að lögð sé fram rakavarnaráætlun sem vinna skal eftir og að skipaður sé rakavarnarfulltrúi sem ber ábyrgð á því að áætluninni sé fylgt eftir. Áætlunin skal m.a. fela í sér áætlaðan útþornunartíma byggingarefna, verklag um hvernig byggingarefni skulu varin fyrir veðri og vindum á byggingarstað, yfirlit um hæsta leyfilega rakastig byggingarefna og fleira. Þessar rakavarnarkröfur tryggja að fagaðili taki ábyrgð á rakavörnum á byggingartímanum og því ólíklegra að algeng mistök eigi sér stað, t.d. að gólfefni sé lagt of snemma þegar steypan er ekki nægilega þornuð eða að timbureiningum sé lokað þegar rakastig þeirra er ekki rétt. Þessar forvarnir geta komið í veg fyrir að byggingin verði fyrir rakaskemmdum vegna byggingargalla. Það skal þó tekið fram að raki og mygla getur orsakast af öðrum ástæðum, svo sem hönnunargöllum, slöku viðhaldi og rangri umgengni. Mikilvægt er að allir hlutaðeigandi séu meðvitaðir um sinn þátt í að halda byggingunni heilbrigðri, þar með talið að notendur bygginga kynni sér aðgerðir sem spornað geta við rakamyndun með réttri umgengni. Raki og mygla í mannvirkjum getur valdið gífurlegu tjóni, bæði fjárhagslegu og heilsufarslegu og er því mikilvægt að vandað sé til verks þegar kemur að þessu málum.

Andleg heilsa skiptir ekki síður máli en líkamleg heilsa og þá spilar dagsbirtan stóran þátt. Dagsbirta eða skortur af birtu getur haft áhrif á líkamsklukku fólks sem getur meðal annars leitt til skammdegisþunglyndis. Sérstaklega er mikilvægt að huga að þessum þáttum þar sem markmið stjórnvalda er þétting byggðar en þétt byggð skapar óhjákvæmilega svæði þar sem sólarljós er takmarkað. Í Svansvottuðum nýbyggingum er tryggt að fullnægjandi dagsbirtu sé náð í vistarverum með því að reikna út dagsbirtuþáttinn (e. Day-light factor) sem er hlutfall milli birtuskilyrði innan- og utandyra.

Svansvottun tekur á fleiri þáttum eins og gæðastjórnun, losun gróðurhúsalofttegunda, líffræðilegri fjölbreytni, hringrásarhagkerfinu. Vottunin er gæðastimpill og virkar sem leiðarvísir fyrir aðila sem vilja byggja umhverfisvænar byggingar og fyrir notendur sem vilja umhverfisvænt og heilsusamlegt húsnæði. Hægt er að votta nýbyggingar og endurbætur þeirra bygginga sem flokkast sem íbúðarhús, skólar, skrifstofur, sumarbústaðir og dvalarheimili.

Heilsusamlegra heimili

En hvað er hægt að gera ef ekki á að fara alla leið og ráðast í vottun? Einstaklingar í framkvæmdum eða verktakar í minni byggingarframkvæmdum geta ýmislegt gert til að styrkja innivist og ýta undir heilsusamlegri byggingar.

Spilliefni
Mikilvægt .jpg

Ef ráðast á í framkvæmdir á núverandi byggingu er mikilvægt að kortleggja húsnæðið vel áður en hafist er handa. Þá er mikilvægt að skoða:

  • Hvort spilliefni finnist í húsnæðinu.
  • Hvort raki eða mygla finnist.
  • Hvernig farga skal byggingarefnum.

Í gegnum tíðina hefur verið notað mikið af heilsuspillandi efnum í byggingarefni, sérstaklega þegar efnaiðnaðurinn var að þróast og þekkingin var ekki sú sama og hún er í dag. Góð þumalfingursregla er að miða við árið 1980, þ.e. ef byggingin er eldri þarf að hafa í huga að skaðleg efni geti leynst í byggingarefnum. Þessi efni tærast oft upp með tímanum, verða jafnvel skaðlegri og átt greiðari leið út í umhverfið, sérstaklega þegar farið er að eiga við þau, t.d. við niðurrif. Þess vegna er mikilvægt að gæta sérstakrar varúðar við niðurrif byggingarefna og einnig meta hvort borgi sig að skipta út gömlum efnum fyrir betri efni.

Best er að fá til sín sérfræðing sem framkvæmir spillefnaúttekt ef ástæða þykir til en einnig er hægt að styðjast við leiðbeiningar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ásamt Grænni byggð hafa gefið út.

Í leiðbeiningunum er meðal annars farið yfir hvernig framkvæma eigi umhverfisúttekt, hvaða efni eru skaðleg heilsu og umhverfi og byggingarhluta og -efni sem gætu innihaldið spilliefni. Þá má helst nefna:

  • Asbest – aðallega notað á árunum 1950-1980, finnst helst í þéttiefni eins og kítti, vínyldúkum, asbestplötum, þakplötum o.fl.
  • Klórparaffín – finnst aðallega í gifsi, málningu, kítti, vínyldúkum o.fl.
  • PCB – notað á árunum 1950 – 1980, finnst í gifsi, málningu, kítti, einangrunargleri o.fl.
  • Þalöt – finnst í gifsi, málningu og vínyldúkum.
  • Þungmálmar eins og arsenik, blý og kvikasilfur – finnst í gagnvörðu timbri, rörum o.fl.
Raki og mygla

Annað sem mikilvægt er að skoða áður en framkvæmdir hefjast er hvort raki eða mygla finnist en rannsóknir sýna að töluverður fjöldi bygginga hefur orðið fyrir rakaskemmdum.

Þá er gott að athuga hvort húsið hafi á einhverjum tímapunkti orðið fyrir vatnsskemmdum, hvort að mygla sjáist, t.d. í hornum útveggja, í votrýmum og bak við veggfastar mublur eða klæðningar. Athuga skal vel hvort að einhver fúalykt finnist eða hvort að málning sé farin að flagna. Einnig er hægt að fá til sín sérfræðing eða útvega rakamæla til að skoða þetta enn frekar.

Mygla.jpg

Ef ráðast á í framkvæmdir á annað borð er gríðarlega mikilvægt að skoða þetta því efni sem hefur orðið fyrir rakaskemmdum eða myglu getur haft mikil áhrif á innivistina og umhverfið og ekki síður líftíma byggingarinnar. Efni sem hafa verið útsett fyrir of háu rakastigi seyta meira en eðlilegt er og getur það leitt til óeðlilegs magns af óæskilegum efnum í inniloftinu.

Í framkvæmdum er einnig mikilvægt að huga að rakavörnum til að koma í veg fyrir raka og myglu. Þá er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Þegar valið er efni sem setja á upp í votrýmum eins og baðherbergi og þvottahúsi er mikilvægt að velja ekki myglusækin efni eins og lífræn efni.
  • Þegar geyma skal byggingarefni á verkstað er mikilvægt að það sé verndað og þurrkað áður en það er sett upp. Almennt fylgja leiðbeiningar frá framleiðanda um rakastig en góð regla er að gera rakamælingar, t.d. á timbri áður en það er sett upp.
  • Ef verið er að steypa eða flota gólf er mikilvægt að efnið fái að þorna áður en gólfefni er lagt ofan á. Hægt er að sækja sér upplýsingar í RB blöð frá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins varðandi útþornunartíma.
Loftræsing

Loftræsing getur haft mikil áhrif á innivist húsa og getur einnig komið í veg fyrir rakamyndun. Sérstaklega er mikilvægt að huga að góðri loftræsingu þegar kemur að húsnæði fyrir viðkvæma hópa eins og börn og eldri borgara en slæm loftræsing getur skert athygli og athafnasemi barna, aukið líkur á astma, ofnæmi og öðrum sjúkdómum. Einnig er líklegra að vírusar og aðrar sýkingar breiðist frekar út milli manna í illa loftræstum rýmum.

Til eru nokkrar leiðir til að loftræsa heimili. Einfaldasta og þekktast er að nota náttúrulega loftræsingu þar sem loftað er út með því að opna glugga. Þá þarf að reyna að mynda trekk svo gusti vel um í a.m.k. 5-10 mínútur tvisvar á dag. Náttúruleg loftræsing þykir stundum óheppileg þar sem erfitt er að ná trekk í gegnum vistarverur, en einnig getur reynst erfitt að halda gluggum opnum ef vindur er mikill úti eða kuldi sem eykur orkuþörf með tilheyrandi kostnaði.

Í dag er farið að nota kerfi sem kallast loftskiptakerfi í meiri mæli. Slíkt kerfi nýtir það loft sem dregið er út úr húsinu til upphitunar á því lofti sem verið er að draga inn, þannig næst varmaendurvinnsla sem minnkar álag á hitakerfið. Heitara loft hitar þá kaldara og öfugt, eftir því sem við á. Þannig helst jafnvægi á hitastigi loftsins og með því er hægt að spara hita og þar með orku. Reynslan hefur sýnt að svona kerfi gera það að verkum að ýmsar lyktir eins og t.d. matarlykt hverfur fyrr og að á morgnana er loftið í húsinu ferskt þó að gluggar hafi verið lokaðir.

Byggingarefni
Slipa.jpg

Það er mikilvægt að velja ný byggingarefni vel þegar ráðast á í framkvæmdir, hvort sem þær eru stórar eða smáar. Rannsóknir sýna að hefðbundin byggingarefni seyta frá sér töluverðu magni heilsuspillandi efna fyrsta árið í notkunartíma nýrra húsa og á þetta einnig við um húsgögn og innréttingar. Byggingariðnaðurinn notar alla jafna gríðarlega mikið af efnavöru og eru iðnaðarmenn sú starfsstétt sem er hvað mest útsett fyrir þessum heilsuspillandi áhrifum. https://journals. sagepub.com/doi/full/10.1177/1420326X18792600.Með því að velja ákveðin umhverfismerki í byggingarvörum tryggjum við ákveðin gæði í vörunni. Til að mynda er búið að sjá til þess að skaðleg efni sem við viljum síður anda að okkur eru takmörkuð.

Umhverfismerki týpa 1 skv. ISO 14024 staðlinum eru umhverfismerki sem starfa eftir ákveðnum kröfum og þykja vera áreiðanlegustu merkin á markaðinum. Dæmi um þessi merki eru:

  • Svanurinn
  • Blái Engillinn
  • Evrópublómið
  • Bra Miljöval

Miljo.jpg

Mikilvægt er að leita eftir réttu merkjunum en algengt er að vörur séu skreyttar hinum og þessum merkjum sem þýða mismunandi hluti og tengjast ekki alltaf umhverfismálum.

Ákveðnar vörur er einfaldara að finna umhverfismerktar en það eru almennt vörur sem innihalda frekar skaðleg efni eins og:

  • Málning og lökk
  • Lím og aðrar efnavörur
  • Línoleum dúkar
  • Spartl
  • Spónaplötur og aðrar byggingarplötur
  • Viðargólf
  • Húsgögn og innréttingar
  • Gluggar og útihurðir

Það er t.d. mikilvægt að velja málningu rétt þar sem hún þekur nánast alla yfirborðsfleti heimilisins og því mikil snerting við íbúana sjálfa og inniloftið.

Gólfefni þekja einnig yfirborðsfleti en þau geta innihaldið hátt magn af formaldehýði sem er afar skaðlegt heilsu fólks, m.a. krabbameinsvaldandi.

PVC gólfefni eins og vínyl dúkar og parket innihalda þalöt sem eru m.a. hormónaraskandi og flokkast slík efni þess vegna sem spilliefni og því nauðsynlegt að flokka þau sem slík eftir líftíma efnisins.

Margt smátt gerir eitt stórt

Eins og sjá má í þessari umfjöllun er margt hægt að gera sem krefst ekki mikillar fyrirhafnar eða fjármagns. Við hvetjum fólk til að sækja sér fróðleik um heilsusamlegra umhverfi á síðum Umhverfisstofnunar www.svanurinn.is og www.graenn.is.

Bergþóra Kvaran

Arkitekt, sérfræðingur á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun

Nýtt á vefnum