Greinar / 7. júní 2021

Að eldast. Hvernig? Hvað getum við sjálf gert?

Eins og lesendur reka strax augun í þá er í fyrirsögninni ögrun. Einhver hugsun liggur þar líklega að baki. Því miður er það staðreynd að margir fara ekki að hugsa til efri áranna fyrr en þangað er komið. Of oft höfum við tilhneigingu að lifa lífinu eins og enginn sé morgundagurinn. Svo skellur hann á. Höfum okkur það til málsbóta að langfeðgar okkar og mæður áttu mun skemmra líf fyrir höndum, létust útslitin, í miðjum slætti, í róðri eða á skrifstofu á miðjum aldri samkvæmt nútímaskilgreiningu. Helstu pælingar þeirra sem tengdist ellinni voru hjá hverju barnanna þeir finndu horn til að kúra í þar til dauðinn, af miskunsemi sinni, leysti þau til himna.

Samfélag umbyltinga

Hin kalda staðreynd er sú að kynslóðirnar í okkar minni bjuggu í samfélagi umbyltinga, þar sem einstaklingar, fjölskyldur, og seinna heilir hreppar voru rifnir upp með rótum og kastað inn í nútíma hverrar kynslóðar. Þeirra nútíma var allt annar en nútími þeirra á undan. Borgarvæðing, breyttir atvinnuhættir, önnur samfélagsgerð og minna stuðningsnet hefur gert miklar kröfur til aðlögunar og skapað streitu. Ekki það að streita hafi ekki fylgt lífi forfeðra okkar. Það var spennuþrungið, oft skelfilegt að standa andspænis óblíðum náttúruöflum, uppskerubresti og horfelli. Hafið var líka grimmt, tók til sín margan fiskimanninn.

Áföll og óvissa skapa kvíða, depurð og þunglyndi. Nóg var af því fyrr á öldum. Meira er á okkar tímum af þessum geðröskunum. Hvernig má það vera?

Þá ber fyrst að nefna að ævilíkur nútímamannsins á Íslandi eru mun lengri en áður var, líkur okkar eru meðal þeirra fremstu í heimi. Þetta þýðir að mjög mörg okkar fara inn í efri árin, 67 ára og þar yfir, með gott starfsþrek og löngun til að starfa. Önnur afleiðing er sú að upp úr miðjum aldri fer margt að gefa sig, sjúkdómar herja á og sumir verða króniskir. Margir fara inn í efri árin með líkamlegan og andlega heilsuvanda, sem dregur úr úr þreki og andlegu atgervi. Lyfin valda líka oft óþægilegum aukaverkunum. Breytt gildismat kynslóðanna og meira rof í beinum tengslum hafa líka óbein áhrif á heilsu. „Ævikvöldið“ verður því ekki það sem það átti að verða, að einkennast af rólegheitum og öryggi. Skrefin inn í efri árin verða mörgum þungbær ef áhugamál hafa ekki verið ræktuð né tengsl við ættingja og vini styrkt. Einmanaleiki á efri árum er vont fyrirbæri.

Þunglyndið lymskufulla

Ég ætla ekki að fjalla hér um þverrandi vitsmunagetu, sem er eðlilegur fylgifiskur hækkandi aldurs (ég þekki það, 76 ára!), svo ekki sé minnst á heilasjúkdóma eins og Alzheimer. Sjónum verður beint að algengum geðröskunum eins og kvíða og þunglyndi.

Þunglyndi er lymskufullur sjúkdómur, stundum læðist það að eins og dalalæða og truflar lítið. Samt nóg til þess að maður er aldrei vel upplagður, dapur, pirraður, með skerta vinnugetu og litla löngun til að sinna fjölskyldu eða áhugamálum. Öllu alvarlegri mynd þunglyndis er mikil svartsýni, vonleysi, algjört verkstol og sinnuleysi. Flestir þeirra sem verða þunglyndir eru einhvers staðar þar á milli. Konur eru mun líklegri en karlar til að verða þunglyndar. Þunglyndi byrjar oftar en ekki á fyrri hluta ævinnar, hjaðnar við meðferð, oft reyndar án meðferðar, en þá á óþægilega löngum tíma.

Fyrstu þunglyndisköst geta komið mun seinna, jafnvel eftir sjötugt. Eitt af vandamálunum sem fylgja þunglyndi, er að viðkomandi áttar sig ekki á því þunglyndi sé skollið á. Kennir öðru um, enda eru sum einkennanna oft líkamleg. Í heimsóknum til læknis er þá ekki minnst á þunglyndið og það þá hvorki greint né meðhöndlað. Inn í þetta spila fordómar gegn geðsjúkdómum, og jafnvel skömmustutilfinning fyrir að vera ekki alltaf vel upplagður og hress. Þróunin er þó í rétta átt, mikið hefur dregið úr fordómum. Heilbrigðisstarfsfólk í framlínunni, heilsugæslu, hefur meiri þjálfun en áður og skilvirkari aðferðir til greiningar og meðferðar.

Mynd2.JPG

Aðstandendur, efnahagsskaði

Það liggur í augum uppi að áhrifin á viðkomandi geta verið þung og erfið. Sama má segja um aðstandendur. Þeir sitja upp með áhyggjur og verða jafnvel bundnir í umönnunarhlutverki. Vinnustaður, nám og fjölskyldulíf líða fyrir. Þó svo að við séum meðvituð um þessa staðreyndir þá kemur það manni á óvart, að samkvæmt mati Alþjóðaheilbrigðismálastofununar (WHO) er þunglyndi númer tvö í röðinni af þeim sjúkdómum sem valda miklum efnahagsskaða á heimsvísu. Ástæðurnar eru að þunglyndi byrjar oft snemma á ævinni, hefur tilhneigingu til endurtekningar, það dregur úr vinnugetu, eykur fjarvistir frá vinnu um leið og það dregur úr framlegð. Lífslíkur þeirra sem búa við krónískt þunglyndi eru mun styttri en annarra, meðal annars vegna aukinnar framleiðslu streituhormóna. Varanlegt streituástand er hættulegt líkamanum. Það skapar meira slit í æðaveggjum, hækkar blóðþrýsting, truflar stjórnun sykurbúskapar, dregur úr virkni ónæmiskerfisins, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta kallar fram marga þekkta sjúkdóma fyrr en ella, sem draga úr lífslíkum. Hér má líka bæta við að varanleg streita hefur neikvæð áhrif á heilastarfsemi, dregur úr frumuendurnýjun og truflar skammtímaminni.

Ótímabær dauði vegna sjálfsvíga er alltaf harmleikur og á sér oftast stað á besta aldri. Fjölskyldur, vinir, skóla-og vinnufélagar sitja eftir harmi lostnir, með sektarkennd og sjálfsásakanir. Oft tekur það langan tíma að vinna úr áfallinu, stundum næst það aldrei. Tap samfélagsins vegna sjálfsvíga skiptir líka máli. Framlegð þeirra látnu til efnahagslífsins, sem annars hefði orðið hefðu þeir náð eðlilegum lífslíkum, glatast. Sumum kann að finnast þetta frekar kaldranalegt mat, en það minnir þó á að hvert líf er dýrmætt í margþættum skilningi.

Áhættuþættir

Áhættuþættir þunglyndis eru margir. Vissulega er fjölskyldusaga mikilvæg. Saga um erfiðan aðbúnað í æsku vegna áfalla, skorts á umönnun og stuðningi barna í uppvexti, ofbeldi á heimili eykur líkur á þunglyndi, kvíða og fíknivanda þegar á unglingsárum og áfram. Saga um þunglyndi í ætt eykur á líkur. Þá getur verið um að ræða erfðir í gegnum gen, oftast er þó líka um að ræða samspil við umhverfisþætti.

Á efri árum bætast við fleiri áhættuþættir. Þá ber fyrst að nefna sögu um fyrri geðraskanir og/eða fíknsjúkdóma, Einstaklingar sem eru með fleiri en einn alvarlegan líkamlegan sjúkdóm eru frekar útsettir fyrir þunglyndi. Sama má segja hafi einstaklingur farið í gegnum nýleg áföll eins og missi nákominna ættingja eða vina. Erfið fjárhagsstaða getur líka haft áhrif. Það að búa einn í einsemd, með lítil félagsleg tengsl er oft stór orsakavaldur.

Hafandi í huga það sem sagt er hér á undan þá þarf það ekki að koma á óvart að tíðni þunglyndis eykst á síðasta hluta ævinnar. Hæstu tíðni er að finna hjá þeim sem búa á hjúkrunarheimilum.

Hvað getum við gert?

Hér er best að hafa kaflaskipti og beina sjónum að því hvernig við getum brugðist við og hvað mætti betur gera.

Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að við á Íslandi erum ekki verr sett en nágrannaþjóðirnar. Sem dæmi má nefna að sjálfsvíg meðal aldraðra karla og kvenna á Íslandi hefur verið með því lægsta á Norðurlöndum undanfarna fjóra áratugi.

Í öðru lagi þá eru nú til betri greiningartæki og meðferðarúrræði. Framþróun í geðlyfjum hefur verið hægari en við hefðum viljað sjá, þó svo að þekking okkar á heilastarfsemi hafi stigmagnast undanfarna áratugi. Þó eru nú teikn á lofti um mikilvægar nýjungar. Tækninýjungar eru að festa rætur, til dæmis raförvun á ákveðnum svæðum heilans (TMS), sem er miklu vægara inngrip en raflostmeðferð (ECT), sem þó á enn sinn sess í alvarlegu þunglyndi. Markviss og gagnreynd form viðtalsmeðferða geta borið góðan árangur. Ekki má gleyma einföldum lífstílsráðum eins og lýst er hér á eftir.

Forvarnir

Aðalatriðið í þessari umfjöllun eru þó forvarnir. Hvað getum við gert til að búa okkur undir þær breytingar sem fylgja efri árunum? Svörin eru í sjálfu sér sáraeinföld, liggja flest í augum uppi. Í því felst reyndar mesti vandinn. Þversögn, ekki satt. Okkur er nefnilega orðið svo eðlislægt að leita eftir töfralausnum, fara um netheima þar sem alls staðar er að finna einhverja gúrúa sem telja sig hafa fundið hina einu lausn. Eða þá að eftirláta það heilbrigðiskerfinu að taka af okkur ábyrgðina.

Fyrsta ráðið er fyrirhyggja. Að vera meðvitaður um breytingarnar sem fylgja hækkandi aldri, heilsufarslega, félagslega og fjárhagslega. Ekki verður hér farið út í fjármál, lífeyris-og tryggingakerfið. Í þeim málaflokki er pólitísk togstreita sem engri lendingu virðist ætla að ná. Sú staðreynd undirstrikar bara þörf þess að undirbúa þennan þátt eins vel og aðstæður manns leyfa, með góðum fyrirvara.

Heilinn eldist líka

Líkaminn eldist og þar með heilinn. Þetta kunna að þykja vondar fréttir. Góðu fréttirnar eru að margt er hægt að gera til að lágmarka hrörnun. Mataræði er gott dæmi. Sem betur fer erum við orðin meðvitaðri um hvað við látum ofan í okkur, hvað er hollt og hvað ekki. Best er að forðast allar öfgar og beita hófsemi. Ekki kýla á harða matarkúra, þeir skila oftast litlu til lengri tíma. Samsetning matar á að innihalda ferskar vörur, fisk, kjöt, grænmeti, ávexti, hnetur, jurtaolíur, kornmeti. Draga úr unnum matvörum og miklum sykri, svo sem miklu sælgætisáti og gosdrykkjum. Þetta þýðir ekki að hamborgarar, pylsur, franskar og gos séu á algjörum bannlista. Það er reyndar mjög áhugavert að tvær mjög stórar rannsóknir hafa sýnt að mataræði sem þetta fer ekki aðeins vel með líkamann, heldur dregur það einnig úr líkum á þunglyndi.

Reglubundin hreyfing í gegnum allt lífið er mikilvæg, allt frá stuttum gönguferðum upp í maraþon, sund, frá heimaleikfimi upp í lyftingar í líkamsræktarstöðvum. Mýkjandi æfingar í gegnum dans, yoga og skyldar greinar. Eitthvað af þessu á að vera hluti af daglegu prógrammi. Fyrir nokkru rakst ég á niðurstöður nýlegrar rannsóknar á áhrifum hreyfingar á andlega líðan. Það er löngu vitað að hreyfingin dregur úr streitu. Í þessari rannsókn kom fram, að fólks sem staldraði við í gönguferðum og gaf sér tíma til að njóta einhvers í umhverfinu sem hreif hugann bjó við minni kvíða og meiri gleði en samanburðarhópur sem bara gekk. Einfalt, tengist kenningum núvitundar, staldra við og hrífast í augnablikinu, ekki síst á efri árum. Það dregur úr hættunni á að festast í grárri rútínu hvunndagsins. Hvatning frá öðrum og góð fordæmi eru mikilvæg.

Við getum gert heilmargt

Við getum haft mun meiri áhrif á þróun heilastarfsemi en áður var talið. Einföld atriði eins og að leggja kabal, tefla, spila spil, leysa krossgátur og leika í hljóðfæri hafa jákvæð áhrif, styrkja minnið og hægja á því sem má kalla eðlilega hrörnun. Hvers kyns áhugamál gefa daglegu lífi jákvætt innihald, þau þarf að rækta og sinna fram í andlátið.

Þegar kemur að félagslega þættinum þá vega tengsl við vini og vandamenn þungt. Þau þarf að rækta af krafti. Ekki þarf að taka fram hvað samskipti við yngri kynslóðirnar eru gefandi, hafa mikil áhrif, draga úr einmanaleika og kvíða. Mjög áhugavert verkefni var gangsett nýlega þar sem eldri borgarar sem þurftu að notast við heimaþjónustu og heimahjúkrun fengu spjaldtölvur til sín. Þannig var hægt að auðvelda mjög samskiptin, gagnkvæma upplýsingamiðlun og ráðgjöf. Allur stuðningur varð mun skilvirkari. Meira öryggi á báða bóga.

Að lokum. Við sjálf og fólkið okkar í kringum okkur getum haft heilmikil áhrif á vellíðan á seinni árunum. Við verðum að muna að sýna sjálfum okkur virðingu og öðrum líka, skapa gleðistundir í daglega lífinu, vera forvitin. Verandi fúll á móti er, ja ... hundfúlt!

Högni Óskarsson

Geðlæknir

Nýtt á vefnum